Gæðastjórnun

Fyrra misseri.
36 klukkustundir / 52 kennslustundir

LÝSING

Í námskeiðinu fjallað með hagnýtum hætti um gæðastjórnun, rætur hennar sem fræðigreinar og hagnýtingu hennar í hvers kyns skipuheildum. Rætt er um vensl gæðastjórnunar og stefnumótunar og hvernig gæðastjórnun birtist í þróun, uppbyggingu og rekstri gæðakerfa. Fjallað er um hvernig árangur í innleiðingu gæðastjórnunar er tengdur gæðavitund og hvernig móta má þessa gæðavitund í gegnum markviss innleiðingarferli. Til skoðunar eru grundvallarhugtök gæðastjórnunar, svo sem gæði, viðskiptavinir, gæðakostnaður, gæðatrygging, gæðavitund, gæðakerfi og leitast er við að setja allt þetta í skýrt samhengi með notkun raunhæfra dæma úr rekstri ólíkra skipuheilda. Rætt er um stöðugt umbótastarf í rekstri fyrirtækja, gæðastýringu og gæðaúttektir og farið er yfir algenga stjórnunarstaðla, svo sem ISO9001 og ISO14001, sem fyrirtæki leggja til grundvallar við uppbyggingu stjórnkerfa á grundvelli gæðastjórnunar.

UMSJÓN

  • Dr Helgi Þór Ingason (Netfang: heling hjá simnet.is).
  • Viðtalstímar í lok kennslustunda eða samkvæmt samkomulagi.

NÁMSMARKMIÐ

Við lok námskeiðsins á þátttakandinn að hafa:

  • Gera grein fyrir inntaki gæðastjórnunar sem fræðigreinar.
  • Útskýra sögu gæðastjórnunar og helstu hugtök hennar.
  • Útskýra vensl gæðastjórnunar og stefnumótunar.
  • Útskýra vensl gæðastjórnunar og verkefnastjórnunar.
  • Útskýra eðli, uppbyggingu og tegundir gæðakerfa.
  • Útskýra gæðavitund og hvernig hún hefur áhrif á innleiðingu og rekstur gæðakerfa.
  • Skilja grunnhugmynd tölfræðilegrar gæðastjórnunar og útskýra einföld stýririt.
  • Greina frá aðferðum umbótastarfs við greiningu og lausn raunverulegra vandamála.
  • Útskýra eðli og uppbyggingu gæðastjórnunarstaðalsins ISO9001.
  • Útskýra meginhugmynd umhverfisstjórnunarstaðalsins ISO14001 og öryggisstjórnunarstaðalsins ISO45001
  • Leggja mat á stöðu gæðastjórnunar í hvers kyns skipuheildum.
  • Tengja útfærslu gæðastjórnunar við stefnumörkun skipuheildar.
  • Skilja innleiðingu gæðastjórnunar á grunni markvissrar verkefnastjórnunar.
  • Meta þá tegund gæðakerfis sem best myndi henta tiltekinni skipuheild.
  • Meta gæðavitund skipuheildar og álykta út frá því um heppilega innleiðingu og rekstur gæðakerfa.
  • Nota aðferðir umbótastarfs við að skilja inntak gæðavandamála.
  • Útskýra eðli og uppbyggingu gæðastjórnunarstaðalsins ISO9001.
  • Greina stöðu gæðastjórnunar hjá skipuheild út frá kröfum gæðastjórnunarstaðalsins ISO9001.
  • Stilla upp gæðakerfi skipuheildar og greina frá því í ræðu og riti.
  • Nýta þekkingu sína á gæðastjórnun við stjórnun ólíkra skipuheilda.
  • Leiða stefnumótandi áætlanagerð í skipuheild, sem grunn að árangursríkri innleiðingu gæðastjórnunar.
  • Leiða markvissa áætlanagerð og eftirfylgni innleiðingar gæðakerfis í skipuheild með verkefnastjórnun.
  • Vinna markvisst með gæðavitund skipuheildar og byggja hana upp.
  • Beita aðferðum umbótastarfs við greiningu og lausn raunverulegra gæðavandamála.
  • Leiða innleiðingu gæðakerfis í skipuheild samkvæmt kröfum gæðastjórnunarstaðalsins ISO9001.
  • Skapa aðstæður fyrir uppbyggilega umræðu um stöðu gæðastjórnunar, gæðakerfi og innleiðingu þess í hvers kyns skipuheild.

NÁMSEFNI

  • Helgi Þór Ingason, Gæðastjórnun: Samræmi, samhljómur og skipulag. JPV útgáfa, Reykjavík, 2015. Öll bókin.
  • Ítarefni verður kynnt þátttakendum í námskeiðinu.
  • Á Facebook-síðu námskeiðsins er samfélag nemenda sem hafa tekið sambærilegt námskeið hjá Nordica ráðgjöf ehf (NCG: Managing Towards Quality).

Kennsluáætlun

Námið skiptist í þessar níu lotur:

  • 1: Gæði – og fleiri grundvallarhugtök
  • 2: Gæðastjórnun
  • 3: Gæðakerfi
  • 4: ISO 9001 stjórnunarstaðallinn
  • 5: Fleiri staðlar og viðmið
  • 6: Innleiðing gæðakerfa
  • 7: Upplýsingar og verkferli
  • 8: Rekstur gæðakerfa
  • 9: Frekari þróun gæðakerfa

KENNSLA

  • Í námskeiðinu er notast við aðferðir spegilnáms. Allir fyrirlestrar námskeiðsins eru aðgengilegir nemendum á sérstökum lokuðum námskeiðsvef. Nemendur geta því hlustað á þá eins oft og þeir kjósa. Í hverju námskeiði eru níu lotur og í hverri lotu eru fjórir fyrirlestrar. Fyrirlestrar eru lagðir fram í þremur hlutum, þrjár lotur í senn.
  • Sá hluti námskeiðisins sem fer fram í kennslustofu og á Zoom fundum snýst um umræður og dýpkun námsefnisins og samtal um niðurstöður verkefnavinnu. Jafnframt skapast tækifæri til þjálfunar í framsögn og kynningum.
  • Fundir standa yfir í 3 klst í senn og fara ýmist fram í kennslustofu (í upphafi námskeiðs og enda þess) eða á neti með notkun Zoom forritsins. Alls fjórir slíkir fundir fara fram í hverju námskeiði.
  • Nemendum er skipt upp í vinnuhópa í upphafi og unnið er með raunhæf verkefni. Í seinustu lotu kynnir hver hópur afrakstur starfsins þiggur endurgjöf, m.a. í formi jafningjamats.Lögð eru fram Podcast í námskeiðinu sem fela í sér dýpkun námsefnisins. Hér er um að ræða alls níu viðtöl við fólk sem tengist gæðastjórnun með beinum og óbeinum hætti. Viðtölin eru lögð fram í þremur hlutum yfir námskeiðstímann.
    · Innleiðing er framsetning á verkefnum og viðfangsefnum sem ætlast er til að nemendur vinni með í námskeiðinu, annað hvort sem einstaklingar eða í hópum. Í námskeiðinu eru þrjár slíkar innleiðingar, í upphafi, um miðbik og fyrir lok námskeiðsins.

NÁMSMAT

Gefið er STAÐIÐ/EKKI STAÐIРfyrir námskeiðið. Námsmat samanstendur af eftirfarandi þáttum:

Í lok námskeiðsins er lagt fyrir tveggja klukkustunda langt krossapróf. Spurt er bæði um efni kennslubókar og um það sem unnið var með í tímum. 

Þátttakendur vinna í hópum að sérstökum viðfangsefnum sem kynnt eru undir liðnum Innleiðing. Afurðir þessarar vinnu eru svör við tilteknum spurningum og álitamálum sem kennari leggur fram. Hóparnir skila ekki formlegri skýrslu til kennara heldur kynna þeir niðurstöður sínar í öllum hópnum á fundum skv. skipulagi kennara, fá endurgjöf kennara og einnig jafningjamat úr hópnum. Að öðru leyti er ekki um að ræða skrifleg skil í námskeiðinu.

Lögð er rík áhersla á að nemendur mæti í fundi námskeiðsins og séu vel með á nótunum. Til að standast námskeiðið þarf nemandi að vera viðstaddur alla fundi námskeiðsins, nema ef um annað er samið við kennara vegna sérstakra aðstæðna. Mæting er tekin á hverjum fundi.

UMFANG

  • Námskeiðið GÆÐASTJÓRNUN er hannað líkt og 6 ECTS-eininga námskeið í grunnnámi á háskólastigi (BA/BS) samkvæmt Bologna-viðmiðunum um æðri menntun.
  • Reiknað er með að miðlungs þátttakandi leggi á sig um 120 klukkustunda vinnu í námskeiðinu (um það bil 36 klukkustundir í tímasókn, 36 klukkustundir í lestur og persónulega tileinkun námsefnis, og 48 klukkustundir í verkefnavinnu).
  • Að námi loknu fá nemendur afhent skírteini ásamt yfirlýsingu frá Nordica ráðgjöf ehf sem lýsir inntaki námskeiðsins, kröfum þess og námsmati. Þátttakendur geta nýtt þessi gögn gagnvart vinnuveitendum, og sýnt þau menntastofnunum ef hugur þeirra stendur til framhaldsnáms.