SOGA NÁMIÐ

Nútíma samfélag og viðskiptaumhverfi kalla eftir fólki sem hefur færni til að taka þátt í og stjórna margvíslegum verkefnum. SAMNINGATÆKNI OG AFBURÐASTJÓRNUN (SOGA) er fjölbreytt nám sem ætlað er þeim sem vilja í senn öðlast þekkingu og þjálfun á sviði stjórnunar og efla leiðtogahæfileika sína. Námið gagnast í reynd öllum sem hafa getu, metnað og vilja til að sinna því. Það gagnast ekki síst millistjórnendum og stjórnendum innan félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana. Námið er ætlað áhugasömu og dugmiklu fólk sem hefur vilja til að efla færni sína í starfi og leik. Í náminu kynnast þátttakendur nýjum hugmyndum og áhugaverðu fólki.

Námið samanstendur af fjórum námskeiðum – GÆÐASTJÓRNUN, MARKÞJÁLFUN, AFBURÐASTJÓRNUN OG SAMNINGATÆKNI – sem skiptast jafnt á milli tveggja missera. Unnið er með færniþættina yfir allan námstímann og áhersla lögð á að kenna nemendum hagnýtar aðferðir og þjálfa þá í notkun þeirra. Kennt er með því að fást við raunhæf viðfangsefni, en mikill hluti námsreynslunnar á sér stað bæði í kennslustofu og í rauntíma vinnu með fjarfundabúnaði í fjölbreyttri vinnu og krefjandi verkefnum – og í hópverkefnum sem unnin eru með öðrum þátttakendum.

KENNSLUFYRIRKOMULAG

Þátttakendur koma til vinnu í kennsluaðstöðu námsins og í fjarfundum í rauntíma samkvæmt dagskrá. Námið er kennt með staðlotum og fundum á netinu, eins og útskýrt er hér að neðan. Tvö námskeið eru í gangi á hverjum tíma. Á haustmisseri eru í gangi námskeiðin Gæðastjórnun og Samningatækni. Á vormisseri eru í gangi námskeiðin Afburðastjórnun og Markþjálfun.

Námið er byggt upp á fjórum grunnstoðum:

  • Fundir standa yfir í 3 klst í senn og fara ýmist fram í kennslustofu eða á neti með notkun Zoom forritsins (ljósblár litakóði). Alls fjórir slíkir fundir fara fram í hverju námskeiði. Fundir í upphafi og enda námskeiðs eru í kennslustofu en fundir um miðbik námskeiðs eru á Zoom.
  • Fyrirlestrar eru nemendum aðgengilegir á lokuðu námskeiðsneti og nemendur geta því hlustað á þá eins oft og þeir kjósa. Í hverju námskeiði eru níu lotur og í hverri lotu eru fjórir fyrirlestrar (gulur litakóði).
  • Podcast eru dýpkun námsefnisins, gjarnan með viðtölum við fólk sem tengist námsefninu með beinum og óbeinum hætti. Í hverju námskeiðið eru níu slík viðtöl (appelsínugulur litakóði).
  • Innleiðing er framsetning á verkefnum og viðfangsefnum sem ætlast er til að nemendur vinni með í námskeiðinu, annað hvort sem einstaklingar eða í hópum. Í hverju námskeiði eru þrjár slíkar innleiðingar (grænn litakóði)

Í SOGA námi er notast við aðferðir spegilnáms. Allir fyrirlestrar í náminu eru nemendum aðgengilegir á lokuðum námskeiðsvef og er ætlast til þess að nemendur mæti undirbúnir í tíma og hafi hlustað á fyrirlestrana og kynnt sér námsefnið. Í kennslustofunni fer þá fram dýpkun námsefnis undir handleiðslu kennara, spurningar og svör, einstaklingsverkefni og hópverkefni.

Kennsluaðferðir eru annars fjölþættar og til að mynda er beitt tilfellagreiningum (e. case-studies), hlutverkaleikjum, stundum eru sýnd myndbönd, haldnir eru fyrirlestrar, hvatt er til samræðu, unnið er að raunhæfum verkefnum, auk þess sem sérstakar Facebook-síður tilheyra hverju námskeiði fyrir sig. Facebook-síðurnar eru notaðar eftir atvikum. Kennarar námsins áskilja sér rétt til að haga kennslu sinni þannig að hún sé í senn skilvirkt lærdómsferli, taki mið af því sem er að gerast í samfélaginu og litist af þróun í faginu.

VIÐMIÐ Í KENNSLU

Hvað kennslufræði námsins áhrærir þá er sótt í smiðjur verkfræðinnar, hugvísinda, sálfræðinnar, leiklistar, og til kennara á borð við gríska heimspekingsins Sókratesar, John Dewey, William James, Matthew Lipmann og Ann Margret Sharp, og virknináms – tilfellagreiningar á raunverulegum dæmum.

Öll kennsla miðast við að þjálfa þátttakendur í að beita skilvirkum aðferðum á raunveruleg viðfangsefni. Við leggjum okkur fram um að kenna og setja efni okkar fram á góðu íslensku máli.

Umsjónarkennarar námsins og þeir sem hafa þróað það eru dr Haukur Ingi Jónasson og dr Helgi Þór Ingason en þeir eru í hópi ötulustu stjórnunarfræðikennara landsins. Eftir þá liggja nú þegar nokkrar bækur á íslensku og ensku um stjórnun. Þeir eru líka þekktir á alþjóðavettvangi fyrir hugmyndir sínar um verkefnastjórnun og tengd efni. Útgefandi þeirra í Bretlandi og Bandaríkjunum er Gower/Ashgate Publishing en á Íslandi er það Forlagið sem gefur bækur þeirra út.

NÁMSMAT

Í náminu er gefið STAÐIÐ/EKKI STAÐIÐ fyrir hvert námskeið fyrir sig. Ástæður þess að ekki eru gefnar einkunnir eru þrjár:

  • Við teljum að sjálfsrýni og álitsgjöf frá samnemendum og leiðbeinendum sé betur fallin til námsmats en töluleg einkunn.
  • Margt af því sem unnið er með og leiðbeint er um í náminu er þess eðlis að erfitt er, og jafnvel ekki sanngjarnt, að gefa tölulega einkunn fyrir.
  • Við teljum að nýta megi samtal um námsmat til að dýpka námsupplifun nemenda.
Námsárangur í námskeiðum í SAMNINGATÆKNI OG AFBURÐASTJÓRNUN (SOGA) er metinn með eftirfarandi hætti:
Almenna reglan er sú að í hverju námskeiði er lagt fyrir krossapróf á netinu, úr efni þess námskeiðs. Samtals eru því prófin fjögur. Prófið er lagt fyrir í lok hvers námskeiðs. Krossaprófin kanna þekkingu nemenda og skilning á námsefni og á því sem leiðbeint hefur verið um í tímum. Prófin eru heimapróf sem tekin eru á tölvu. Próftími er á bilinu ein til tvær klukkustundir. Þátttakendi fær umsögnina STAÐIÐ eða EKKI STAÐIÐ, en krafa er gerð um 60% árangur að lágmarki. Ef nemandi fellur á prófi, gefst honum kostur á að þreyta upptökupróf í enda námsins.
Allir þátttakendur vinna verkefni og gera grein fyrir þeim. Í sumum námskeiðum er um einstaklingsverkefni að ræða en í öðrum eru hópverkefni. Í hópverkefnum er sérstök áhersla lögð á að þátttakendur séu virkir í samstarfi innan hópanna. Þetta er meðal annars greint með því að kalla eftir innbyrðis mati hópmeðlima á þátttöku og ástundun hvers annars. Álitsgjöf fyrir verkefnin er einkum veitt með umræðum og jafningjamati. Þátttakandi fær STAÐIÐ fyrir þennan þátt að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Leiðbeinendur áskilja sér rétt til að veita EKKI STAÐIÐ fyrir þennan þátt ef nemandi reynist ekki vera fullgildur þátttakandi í verkefnum.
Krafist er 75% mætingar í hverju námskeiði. Mæting er metin jafnt og þétt í hverju námskeiði, mætingarlistar ganga í tímum og í lok hvers námskeiðs er kannað hvort mætingaskylda hafi verið uppfyllt. Meginástæða þessarar kröfu um tímasókn er sú að framlag hvers nemanda skiptir máli. Einnig að í námskeiðunum er verið að kenna aðferðir sem aðeins lærast með viðveru og virkri þátttöku. Þátttakandi fær STAÐIÐ fyrir þennan þátt að uppfylltum ofangreindum skilyrðum.

UMFANG OG ALÞJÓÐLEG VIÐMIÐ

Námið tekur mið af þeim alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum sem háskólar gera á BA/BS stigi. Námið er hannað eins og það væri fjögur 6 ECTS-eininga námskeið í grunnnámi á háskólastigi, samkvæmt Bologna-viðmiðunum um æðri menntun. Þannig er reiknað með að hver þátttakandi leggi á sig að minnsta kosti 120 klukkustunda vinnu í hverju námskeiði. námskeiði um 36 klukkustundir í tímasókn, 36 klukkustundir í lestur og persónulega tileinkun námsefnis, og 48 klukkustundir í verkefnavinnu. Reyndir háskólakennarar sjá um kennsluna og að námi loknu fá nemendur afhent skírteini ásamt yfirlýsingu frá Nordica ráðgjöf ehf. sem lýsir inntaki námskeiða, kröfum og námsmati. Þátttakendur geta sýnt þessi gögn vinnuveitendum, og menntastofnunum ef hugur þeirra stendur til framhaldsnáms á þessu sviði.

HVENÆR ER KENNSLA?

Kennsluáætlun fyrir haust 2023 og vor 2024 kemur fram í skýringarmyndinni hér fyrir neðan. Kennslutímar í rauntíma eru sem hér segir (miðað við um 7 klst pr dag með hádegishléi):

6. september 2023 – kennsla í stofu

4. október 2023 – kennsla á Zoom

1. nóvember 2023 – kennsla á Zoom

29. nóvember 2023 – kennsla í stofu

10. janúar 2024 – kennsla í stofu

7. febrúar 2024 – kennsla á Zoom

6. mars 2024 – kennsla á Zoom

10. apríl 2024 – kennsla í stofu

Ekki liggur enn fyrir hvar kennsla (í stofu) fer fram.

HVERNIG SKRÁI ÉG MIG?

Skráning fyrir veturinn 2023 – 2024 er hafin og stendur til 15. júní n.k. Hér er hlekkur á skráningarform. Forkrafa í námið er að hafa lokið náminu Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. Fyrirspurnum má beina á netfangið nordicaradgjof@gmail.com.